Spurt og svarað um döff menningu!

Þú veltir eflaust fyrir þér hvernig samfélag heyrnarlausra og heyrnarlaust fólk er, en hefur ekki þekkingu á táknmáli til að spyrja og tala við döff fólk, þorir kannski ekki eða vilt ekki móðga neinn.En engar áhyggjur, við skulum svara einhverjum þessara spurninga sem koma oft upp. Ef þú hefur spurningar sem þú finnur ekki hér, sendu okkur tölvupóst á deaf@deaf.is og við uppfærum listann spurt og svarað hér fyrir neðan.

Hver er munurinn á heyrnarlausum og döff?

Heyrnarlaus einstaklingur sem skilgreinir sig döff reiðir sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta í daglegu lífi. Heyrnarlausir eða heyrnarskertir vísar til fólks sem býr við heyrnartap en notar ekki íslenskt táknmál sem fyrsta mál

Hvað er döff menning?

Döff er málminnihlutahópur sem lifir og eignast sína lífsreynslu, skoðanir og tungumál sem birtist í döff menningu. Þetta felur í sér skoðanir, viðhorf, sögu, viðmið, gildi, bókmenntahefð og list sem heyrnarlausir deila.

Hvað er döff samfélag?

Döff menning er kjarninn í döff samfélögum víðar í heiminum. Döff samfélag er menningarhópur sem deilir táknmáli og sameiginlegri arfleifð. Einstaklingar í samfélagi heyrnarlausra skilgreina sig því sem döff í menningar- og málminnihlutahóp. Að skilgreina sig sem döff er persónulegt val og er venjulega metið óháð heyrnarstöðu einstaklingsins og samfélagið samanstendur ekki sjálfkrafa af öllum þeim sem eru döff. Í döff samfélagi eru líka fjölskyldur döff, táknmálstúlkar og fólk sem vinnur eða umgengst döff og þekkir döff menningu.

Er táknmál alþjóðlegt?

Táknmál er EKKI alþjóðlegt, hvert land hefur sitt eigið táknmál eins og raddmálin.

Er ÍTM eins konar íslenska?

ÍTM er skammstöfun fyrir Íslenskt táknmál og er ekki beinþýdd útgáfa af íslensku. ÍTM er fullgilt íslenskt tungumál.

Er málfræði í ÍTM ?

Já, ÍTM hefur eigin formgerð og málfræði sem er ólík í raddmáli. Í táknmáli finnum við ekki beygingarendingar, greini og föll á sama hátt og er í raddmáli. Táknmál hefur annars konar málfræði sem er engu síður áhugaverð og mikilvæg en málfræði raddmála.

Er ÍTM byggt upp af látbragði?

Nei, látbragð og ÍTM er EKKI það sama.

Geta allir döff talað?

Nei, það er persónulegt val hvers og eins döff hvort viðkomandi kjósi að nota rödd sína eða ekki. Það eru ýmsar skoðanir, bækur og rit sem skýra ástæðuna. Stutta svarið er að ekki fara allir döff í talþjálfun og kennslu, vilja tala, sumum finnst gott að nota rödd með eða hafa aldrei notað rödd sína. Það er val hvers og eins döff.

Af hverju eru ekki allir döff með heyrnartæki?

Margir döff og heyrnarskertir nota heyrnartæki því tækin hjálpa þeim að heyra, en fyrir aðra koma þau ekki að notum. Það er val einstaklingsins, byggt á þörfum og gæðum tækninnar hverju sinni.

Eiga allir döff döff foreldra?

Nei, það er áætlað að 10% heyrnarlausra einstaklinga komi frá döff fjölskyldum, hin 90% eru fædd í heyrandi fjölskyldur.

Hvert fara döff í skóla?

Á Íslandi er að finna táknmálssvið í Hlíðaskóla. Í framhalds- og háskólanámi hafa döff nemendur rétt á að hafa táknmálstúlk í námi.

Geta döff lesið?

Já, döff geta lesið og skrifað. Íslenska er annað tungumál hjá flestum döff sem gerir þá tvítyngda í bæði ÍTM og íslensku.

Geta döff keyrt?

Að sjálfsögðu þau eins og aðrir sem hafa tekið bílpróf.

Geta döff lesið blindraletur?

Jú, þeir geta lært að gera það eins og hver annar.

Hvað er snertitáknmál?

Það er táknmál/samskiptamáti fyrir fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu þar sem snerting og hreyfing á milli túlks og hins með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu á sér stað.

Hvernig vita döff þegar einhver er við dyrnar?

Almennt eru döff með dyrabjöllur með blikkljósum, í hvert skipti sem einhver hringir á dyrabjöllu þá blikka ljósin eða aðgangsbúnaður sem titrar.

Hvernig tala döff í síma?

Þeir nýta sér tæknina, Facetime, textaskilaboð, Skype, myndsímar o.s.frv.

Hvernig hringi ég í döff einstakling?

Ef þú talar ekki ÍTM þá hefur þú möguleika á að hringja gegnum túlkaþjónustu t.d www.shh.is. Þú munt heyra í túlkinum en þú ert að tala við döff manneskju. Á meðan samskiptin standa mun heyrnarlausi einstaklingurinn horfa á túlkinn túlka samskiptin þín í gegnum skjá. Það sama á við þegar döff þarf að ná í heyrandi.

Hvað er myndsímatúlkaþjónusta?

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra býður uppá myndsímatúlkun en það er fjartúlkun á samtali í gegnum vefmyndavél og síma þar sem annar aðilinn talar íslensku en hinn íslenskt táknmál. Þjónustan er veitt í gegnum Skype og Teams forritin og þarf ekki að panta, sjá nánar www.shh.is.

Fyrir hvern er táknmálstúlkur?

Táknmálstúlkar tryggja samskipti milli döff og heyrandi og er þá þarfur fyrir báða aðila. Þeir eru menntaðir og bundnir trúnaði í einu og öllu í þeim samskiptum sem þeir túlka. Hvernig tala ég við döff einstakling þegar táknmálstúlkur er til staðar? Þegar táknmálstúlkur er notaður er hlutverk þeirra að tryggja samskipti milli döff einstaklinga og heyrandi sem talar ekki ÍTM. Við samskipti gegnum túlk áttu að horfa á þann döff sem þú talar við en ekki túlkinn og beina orðum þínum beint til döff. Í raun áttu að hafa samskiptin eins og túlkurinn sé ekki til staðar.

Hvernig fæ ég túlk?

Á Íslandi eru meðal annars túlkaþjónustur eins og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Túlkun og tal.

Hvernig næ ég athygli döff?

Þú getur t.d vinkað, bankað létt á öxlina, notað þriðja aðila til að fá athygli þeirra fyrir þig, blikkað ljós og bankað á borðið (til að búa til titring).

Er dónalegt að horfa á döff tala táknmál?

Já á sama hátt og fólki finnist hlustað á samtöl sín á milli.

Ef döff eru að tala sín á milli og ég þarf að trufla samræðurnar, hvað geri ég?

Þú þarft ekki að að dansa limbo á milli þeirra, táknaðu einfaldlega „afsakið“ og gakktu beint í gegn. Flettu upp „afsakið“ í ÍTM forritinu! Kurteisi er góð.

Eru þjónustuhundar notaðir?

Sumir döff eru með þjónustuhunda og eru ýmsar ástæður fyrir þeim og nefnum við hér nokkrar: Viðvörun fyrir sírenum, almenn viðvörun, bankað á hurðina, boðflenna og önnur umhverfishljóð.

Líkar döff tónlist?

Jú vissulega! Það eru til döff dansarar, tónlistarmenn, plötusnúðar (DJ) og eru t.d að finna döff leikrit á Broadway! Döff mæta á tónlistarhátíðir, klúbba og tónleika að finna sterkan trommuslátt og bassa gerir döff auðveldara að finna fyrir tónlistinni og drekka í sig sjónræna stemmningu um leið. Það eru ótrúlega hæfileikaríkir döff sem gera tónlist aðgengilega og táknrænt listræna í gegnum táknmál.

Ef ég er tala táknmál og kann ekki orðið... hvað geri ég þá?

Þú getur spurt með því að stafa orðið og spurt hvert tákn orðsins er. Við kennum þér hvernig á að spyrja í ÍTM forritinu!

Hvert get ég farið til að hitta aðra táknmálstalandi og döff í samfélaginu?

Félag heyrnarlausra er með félagsheimili, döff viðburðir á fésbókarsíðu Félags heyrnarlausra, hitta aðra döff og fara í mat saman, hittast í verslunarmiðstöðvum og leita uppi tækifæri til hittings með döff. Margt er einnig að finna á internetinu!

Hvernig veit ég hvernig á að eiga samskipti við döff einstakling?

Samskipti er samvinna, vertu opin og ófeimin. Döff manneskjan mun láta þig vita hvaða samskiptaaðferð er hentugust, hvort sem það er að nota táknmál, tala, lesa varir, látbragð, skrifa á blað o.s.frv.

Fara döff í bíó?

Já vissulega. Flestar kvikmyndir eru textaðar, sum bíó erlendis eru með sérstök gleraugu þar sem texti eða túlkun kemur fram auk þess sem sum bíósæti eru með textaskjá í sætinu fyrir framan. Tækninni fleygir fram.

Hvernig er aðgengi heyrnarlausra að sjónvarpi?

Aðgengi að innlendu sjónvarpsefni þarf að tryggja með textun. Á Íslandi er sumt íslenskt sjónvarpsefni textað, eins er texti á erlendu sjónvarpsefni.

Hvernig vita döff hvort sjúkrabíll eða lögga komi ef þeir heyra ekki sírenurnar?

Döff eru mjög sjónnæmir, þeir skynja og sjá blikkandi ljósin og nema strax ef aðrir bílar færa sig undan og frá neyðarakstri.

Hvernig hafa döff samband við 112 eða lögreglu?

Á Íslandi er hægt að sækja 112 app í símann sem er hannað fyrir döff, nýta sér netspjall við neyðarþjónustu eða sent sms.

Eiga döff vekjaraklukku og hvernig vakna þeir?

Það er mjög breytilegt eftir einstaklingum. Sumt fólk er mjög ljósnæmt og vaknar út frá dagsbirtunni úti, aðrir eru með blikkljósabúnað eða klukku með titringi sem er undir koddanum. Svo nota margir símana sína.

Fleiri spurningar? Spyrjið okkur!